Skrá mig inn

Snemma að sofa

May 06, 2024

Snemma að sofa

Ég er mikill talsmaður þess að börn fari snemma að sofa. Ég vildi óska þess að ég hefði byrjað á því fyrr og fæ bara smá sting þegar ég rifja upp hversu seint eldri stelpan mín fór oft að sofa sem ungabarn.

 

Af hverju snemma að sofa?

Við höfum öll innbyggða dægursveiflu sem stjórnar því hvenær við viljum sofa og hvenær við viljum vaka. Þessi innri klukka er að þroskast frá fæðingu og við 3-4 mánaða aldur er hún orðin nægilega þroskuð til þess að hægt sé að vinna með henni til að styðja við svefn og vöku.

Þegar dægursveiflan gerir þig hressa er erfitt að sofna og ef við sofnum sofum við ekki eins endurnærandi svefni. Að sama skapi er erfitt að vera vakandi og hress þegar dægursveiflan gerir þig þreytta. Þessi dægursvefla gerir að verkum að börn verða náttúrulega þreytt á milli 18-19 á kvöldin. Þá er fullkomin tími fyrir róandi rútínu fyrir svefninn sem endar á því að barnið er lagt til svefns. Ef barnið er lagt til svefns á þessum tíma á það auðveldara með að sofna, er líklegra til að sofa vel og lengi og vakna endurnært.

Lífeðlisfræði svefns er þannig að fyrri part nætur sofa börn í löngum svefnhringjum sem innihalda hlutfallslega mikinn djúpsvefn, seinni part nætur eða frá um kl 3 sofa börn í stuttum svefnhringjum sem innihalda hlutfallslega mikinn lausan svefn. Þessi djúpi, endurnærandi svefn fyrir miðnætti er mikilvægur fyrir margar sakir en ekki síst uppá að barnið vakni endurnært morguninn eftir. Því fyrr sem barnið fer að sofa því meira af þessum djúpa endurnærandi svefni fær barnið.

Að fara snemma að sofa gerir barninu kleift að fara að sofa þegar líkami þess kallar á svefn, það eru minni líkur á baráttu á háttatíma, minni líkur á næturvöknunum og að barnið vakni mjög snemma. Barnið er líklegra til að sofa lengri nótt, vakna vel úthvílt og taka langa og reglulega lúra yfir daginn.

Við skulum heldur ekki gleyma þeim mikilvæga punkti að ef barnið fer snemma að sofa fá foreldrarnir rólegt kvöld útaf fyrir sig, sem er gulls ígildi. Nægur tími gefst til að hlaða batteríin og rækta sambandið.

Þannig að það að barnið fari snemma að sofa hefur beinan ávinning fyrir barnið og óbeinan ávinning fyrir foreldrana. Úlfatíminn minnkar eða hverfur, það verður rólegra andrúmsloft á heimilinu og helgarnar verða notalegri þar sem allir eru vel úthvíldir.

 

En vaknar barnið þá ekki snemma morguninn eftir?

Margir foreldrar veigra sér við því að setja barnið sitt snemma að sofa af ótta við að það vakni þá snemma um morguninn. Það gerist yfirleitt ekki því að ef barnið fer snemma að sofa fær það gæðameiri svefn, á auðveldara með að sofna sjálft og tengja svefnhringi á næturnar, þar á meðal undir morgun þegar barnið sefur lausum svefni.

Ef barnið fer seint að sofa getur myndast þessi vítahringur ofþreytu og erfiðleika með að sofna og sofa vel. Rútínan yfir daginn fer í rugl því barnið er þreytt og barnið er pirrað seinnipartinn og á kvöldin. Þessi þreytudrifni pirringur endar í yfirsnúningi á háttatíma sem gerir barninu erfitt fyrir að sofna. Barnið sofnar þá jafnvel ekki fyrr en það krassar af þreytu. Það vaknar svo þreytt daginn eftir, lúrarnir fara í rugl og vítahringurinn heldur áfram. Þetta er kannski íkt dæmi en þið skiljið hvert ég er að fara.

Að fara seint að sofa og vakna snemma eru hjón. Ef barnið er orðið of þreytt fer líkaminn að framleiða kortisol til að halda sér vakandi, það á erfitt með að sofna, sefur lausar og er líklegra til að vakna snemma. Það bætir ekki upp fyrir svefninn sem það missti um kvöldið með því að sofa lengur um morguninn.

 

Hver er heppilegasti háttatíminn?

Þú gætir verið að velta því fyrir þér núna hvenær ákjósanlegast er fyrir barnið að fara að sofa. Í þeirri dagrútínu sem ég ráðlegg er háttatíminn klukkan 19. Hann fer þó eftir aldri og hvernig barnið hefur sofið yfir daginn, en háttatími á bilinu 18-20 myndi falla innan rammans. Ég myndi þó alltaf ráðleggja að hafa rútínuna þannig að háttatími sé í allra síðasta lagi 19:30, til þess að varðveita þennan endurnærandi svefn fyrir miðnætti. Varðandi aldur, þá ráðlegg ég að fara að huga að því að færa háttatímann framar eftir 6 vikna aldur.

Ef barnið þitt vaknar snemma á morgnanna eða er stútfullt af orku þegar komið er að háttatíma, er það yfirleitt ekki merki um að það þurfi að fara seinna að sofa heldur að öllum líkindum einmitt öfugt. Líklegt er að barnið sé komið á yfirsnúning vegna of mikillar þreytu.

Að sjálfsögðu fylgja því líka gallar að hafa háttatímann svona snemma, þú þarft jú alltaf að vera komin snemma heim og einhverjum gæti fundist þetta strangt, hefta getuna til að vera í matarboðum o.s.frv. Ég leysi matarboðin þannig að ef fjölskyldan býður okkur í mat er hann hafður snemma og allir eru sáttir við það. Ef vinir bjóða okkur í mat er það yfirleitt barnlaus matarboð og þá er mjög hentugt að börnin eru sofnuð þegar barnapíurnar koma. Ef vinirnir vilja hittast í mat með börnin gerum við það yfirleitt yfir brunch, þegar allir eru hressir og kátir. Það er ekkert gaman við það að vera með þreytt börn með sér í matarboði.

Viltu meiri hjálp varðandi svefn barnsins þíns?

Netnámskeiðin mín innihalda allar þær upplýsingar sem þú þarft til að hjálpa barninu þínu að læra að sofa vel.

 

Nýburinn: 0-3 mánaða

Virðingarríki Svefnklúbburinn: 4-24 mán

Betri svefn: 2-4 ára

Hafa Samband