Skrá mig inn

Aðskilnaðarkvíði

May 06, 2024

Aðskilnaðarkvíði

Aðskilnaðarkvíði er eðlilegur partur af þroska barna fyrstu mánuðina og árin. Þetta getur verið erfitt tímabil fyrir barnið og foreldrið, en þá er mikilvægt að minna sig á að þetta er eðlilegt, mun líða hjá og er jákvæður hluti af þroskanum. Þetta þýðir að þú hefur myndað sterk tengsl við barnið þitt og að það finni fyrir öryggi og ró í návist þinni.

Börn geta upplifað aðskilnaðarkvíða á hvaða aldri sem er, en algengasti aldurinn er 9, 12, 18 og 24 mánaða. Einnig geta komið skorpur við miklar breytingar, t.d. þegar barnið byrjar á leikskóla, þú snýrð aftur til vinnu, ef barnið eignast lítið systkini, flytur o.s.frv.

Aðskilnaðarkvíði getur birst á mismunandi hátt, en yfirleitt felur hann í sér að barnið verður meira háð þér, verður sárt ef þú ferð úr augsýn, velur annað foreldrið frekar en hitt, grætur þegar þú skilur það eftir hjá fjölskyldumeðlim eða á leikskólanum, mótmælir á háttatíma eða kallar eftir þér á næturnar.

Það er fullkomlega eðlilegt að barnið þitt gangi í gegnum svona tímabil, hlutverk okkar sem foreldri er gefa barninu ást og öryggi, hjálpa því að aðlagast breytingum og hjálpa því að skilja að við komum alltaf aftur ef við þurfum að fara frá þeim í einhvern tíma.

 

Hvernig get ég hjálpað barninu í gegnum tímabil aðskilnaðarkvíða?

Það er ýmislegt sem við getum gert til að styðja barnið í gegnum þessar tilfinningar og til að byggja upp öryggi.

Rólyndi: Ef barnið er mikið í uppnámi yfir daginn er eðlilegt að þú upplifir meiri pirring og vanlíðan. Ef þú nærð að halda í jákvæðu tilfinningarnar, sýna rólyndi og jákvæðni, hjálpar það barninu að líða eins. Það skynjar þá að allt er í góðu lagi og að það þurfi ekki að hafa áhyggjur.

Rútína: Fyrirsjáanleg rútína yfir daginn og svo róandi rútína fyrir svefninn hjálpar barninu að finna fyrir öryggi og ró.

Segðu alltaf bæ og góða nótt: Það getur virst auðveldara að lauma sér í burtu ef barnið er rólegt þegar þú þarft að fara, til að koma í veg fyrir að barnið komist í uppnám. En við viljum að barnið viti að þú ert að fara, svo það læri að þú komir til baka og læri að það þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að þú hverfir allt í einu, þú lætur það vita. Þannig að þú segir bless þegar þú þarft að fara og góða nótt þegar barnið á að fara að sofa, hafðu ferlið skýrt og stutt.

Huggaðu barnið: Þú býður barninu huggun þegar það þarf á því að halda, það gæti þurft meiri huggun yfir daginn eða nóttina. Láttu barnið vita að það er öruggt og að þú komir alltaf til baka. Ef þú hefur kennt barninu að sofa vel í eigin rúmi, getur þú gert þetta án þess að taka skref aftur á bak. Barnið hefur ekki gleymt því sem það hefur lært þó það þurfi meiri stuðning. Að veita stuðning þýðir ekki að rugga barninu í svefn eða á þann hátt sem það var áður vant. Þú ert einfaldlega að láta barnið vita að þú ert til staðar og elskir það, á sama tíma og þú styður það í að sofna án aðstoðar. Það gæti verið að barnið þurfi einungis á nærveru þinni að halda. Vertu skýr og staðföst/fastur.

Útskýrðu: Þó að barnið þitt sé ekki farið að tala getur það skilið heilmikið. Útskýrðu fyrir barninu ef þú þarft að fara að þú komir aftur eftir ákveðin tíma, það getur líka hjálpað að plana hvað þið ætlið að gera þegar þú kemur til baka. Það þarf ekki að vera neitt stórt, jafnvel bara að lesa eina bók. Það hjálpar barninu að sjá þig fyrir sér koma aftur. Á háttatíma geturðu útskýrt að þú ert alltaf nálægt barninu á meðan það sefur.

Eyddu tíma með barninu: Gefðu barninu færi á tíma einn á einn yfir daginn. Þetta þarf ekki að vera langur tími, 10-20 mínútna leikur er nóg. Leyfðu barninu að stjórna leiknum, vertu 100% til staðar og gefðu barninu alla þína athygli.

Þolinmæði: Það getur tekið tíma fyrir barnið að komast í gegnum þetta tímabil. Haltu þig við rútínuna og mörkin og sýndu jákvæðni og stuðning.

Viltu hjálp varðandi svefn barnsins þíns?

Netnámskeiðin mín innihalda allar þær upplýsingar sem þú þarft til að hjálpa barninu þínu að læra að sofa vel.

 

Nýburinn: 0-3 mánaða

Virðingarríki Svefnklúbburinn: 4-24 mán

Betri svefn: 2-4 ára

Hafa Samband